Sigmundur Davíð, þér er hér með sagt upp störfum!

Íslendingur

/ #311 Sigmundur brýtur lögin um skráningu lögheimilis til að eiga möguleika á kosningu inná Alþingi!

2016-04-02 01:45

 Sigmundur brýtur lögin um skráningu lögheimilis til að eiga möguleika á kosningu inná Alþingi!

Forsætisráðherra brýtur lög með því að skrá lögheimili sitt þar sem hann býr ekki. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, færði lögheimili sitt úr Reykjavík og yfir í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu kosningar, að Hrafnabjörgum 3 í Jökulsárhlíð á Héraði. Sigmundur heldur þó enn heimili í Ystaseli í Reykjavík. Þetta er óheimilt, því þó að í lögum um lögheimili sé að finna undantekningar sem snúa að þingmönnum, þá mega þingmenn einungis eiga skráð lögheimili á öðrum stað en þeir búa á hafi þeir búið á umræddu lögheimili áður en kosning til þings kallaði á búsetu þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

Var ekki búsettur að Hrafnabjörgum

Þetta skrifar Teitur Atlason ritstjóri Jafnaðarmannsins, fréttablaðs Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, í nýjasta blað félagsins. Teitur vekur athygli á því að í síðasta eintaki Jafnaðarmannsins hafi verið fjallað um kjörgengi Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og þá ákvörðun yfirkjörstjórnar að úrskurða hana kjörgenga þrátt fyrir vafa um rétta lögheimilisskráningu. Um þau skrif var meðal annars fjallað áEyjunni.

Teitur segir að Sigmundur hafi ekki átt fasta búsetu á Hrafnabjörgum áður en hann varð þingmaður og hann brjóti því lög með lögheimilisskráningu sinni.

Nú kann að vera að mörgum þyki þetta vera léttvægt og ómaklegur uppgröftur en staðreyndin er að þetta er bannað og ágætt að hafa í huga að ef þingmenn fara ekki eftir lögum sem gilda í landinu – hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að aðrir að geri það?

Fólk á að fara eftir lögum

Það að forsætisráðherra þiggi þjónustu frá einu sveitarfélagi, Reykjavík, en borgi útsvar í öðru, Fljótsdalshéraði, er afar sérkennilegt að mati Teits.

Í tilfelli forsætisráðherra og konu hans eru um að ræða ein ríkustu hjón landsins og útsvarstekjur þeirra eru sjálfsagt með því hæsta sem sést. […] Fólk á að fara eftir lögum sem gilda í landinu og það á að skrá lögheimili sitt þar sem það hefur koddann sinn. Þetta ætti að gilda um alla og ekki bara um fátækt fólk á hrakhólum. Heldur líka Sigmund Davíð Gunnlaugsson með allar sínar miljónir.