Að ríkið leiti allra leiða til að fá Ramez Rassas til Íslands

Undirskriftirnar voru prentaðar út rétt í þessu. Þeim verður skilað í innanríkisráðuneytið og Útlendingastofnun uppúr klukkan eitt. Enn má þó skrifa undir, enda málið ekki í höfn. -Benjamín, á hádegi 29. júlí 2014.

Ramez Rassas slapp frá Gaza í mars 2009. Hann komst til Noregs og bað um vernd sem flóttamaður, en var hafnað. Hann áfrýjaði og kærði ítrekað en allt kom fyrir ekki. Hann flýði áfram til Belgíu og svo til Íslands, því "þar voru ekki margir flóttamenn, svo kannski gætu þeir séð málið mitt skýrari augum." Það var borin von.

Vegna umsóknar sinnar í Noregi var hann dæmdur til að fara þangað aftur. Hann sýndi þá íslenskum yfirvöldum fimm neitanir sem hann hafði fengið þar, og útskýrði að ef hann færi til Noregs yrði honum vísað beint til Gaza. Þessu trúðu íslensk yfirvöld ekki - norsk yfirvöld hlytu að vita hvað þau væru að gera. Þau myndu ekki senda nokkurn mann til Gaza eða á önnur hættusvæði.

Mánuði síðar var Ramez aftur í Gaza.

Að íslensk stjórnvöld hafi ekki vitað að svona myndi fara er harla ótrúlegt. Þessi lumma, að önnur lönd viti alveg hvað þau eru að gera, hefur verið margafsönnuð - stundum af ríkinu sjálfu. Í vetur fékk maður stöðu flóttamanns hér á Íslandi eftir að hafa verið margneitað erlendis. Þegar ríkið tók loks, eftir mikið múður, að skoða málið efnislega komu í ljós hörmulegir misbrestir og þær skelfilegu aðstæður sem biðu mannsins við brottvísun. Mál Ghasems Mohamadi er annað af sömu sort.

Aðstandendur Ramez misstu allt samband við hann í ársfjórðung eftir að honum var vísað úr landi, en fyrir nokkrum dögum dúkkaði hann aftur upp. Nú er hann í stríði. "Gluggarnir í húsinu okkar splundruðust útaf loftskeyti sem sprakk bakvið það." Hann flýði með fjölskyldu sinni, og er í frekar ótryggu netsambandi. "Ef þú nærð ekki í mig geturðu reynt að hringja, því kannski verður klippt á internetið og rafmagnið og vatnið." Þetta heyrir maður frekar sjaldan á Íslandi.

Ef samúð og réttlæti stýrðu íslenska ríkinu væru bátar á leiðinni til Gaza núna að sækja alla sem vildu koma. En í staðinn er þeim fáu sem ná hingað skipað að fara heim aftur.

Við leggjum því fram þessa bænaskrá til ríkisins:

1) Að allra leiða verði leitað til að sækja Ramez Rassas hingað aftur, því hann er nú þvert á orð ríkisins kominn til Gaza aftur.

2) Að engri manneskju verði vísað burt frá Íslandi á meðan ekki er tryggt að hún lendi þá ekki í ómannúðlegum aðstæðum.