Albert HN Valdimarsson tilnefndur til fálkaorðu

Tilnefndur til hinnar íslensku fálkaorðu er;

Albert H.N. Valdimarsson,

Öldugötu 13,

220 Hafnarfirði.

Til Orðunefndar,

Sóleyjargötu 1,

101 Reykjavík.

 

Ágætu nefndarmenn.

Í 1. gr. forsetabréfs um hina íslensku fálkaorðu, nr.145/2005 segir:

„Orðunni má sæma innlenda einstaklinga eða erlenda fyrir vel unnin störf í þágu þjóðarinnar, einstakra þjóðfélagshópa eða landshluta, eða í þágu mikilvægra og góðra málefna á Íslandi eða á alþjóðavettvangi.“

Með þessa skilgreiningu að leiðarljósi er það samdóma álit fjölda Íslendinga að Albert Hólmsteinn Norðdal Valdimarsson, kt. 151038-2479, til heimilis að Öldugötu 13, 220 Hafnarfirði  sé mjög vel að hinni íslensku fálkaorðu kominn. Albert er einstakur maður og frumkvöðull hérlendis í útbreiðslu  blakíþróttarinnar, ötull fræðari og hugsjónamaður.  Hann er fyrirmynd í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur og sannkallaður mannvinur.

Albert Hólmsteinn Norðdal Valdimarsson er fæddur 15. október 1938 í Holtahreppi í Rangárvallasýslu. Foreldrar hans voru Valdimar Sigurjónsson og Guðrún Margrét Albertsdóttir. Albert  varð cand.mag í jarðeðlisfræði og stærðfræði frá Oslóarháskóla árið 1966 og cand philos frá Háskóla Íslands árið 1964.  Albert starfaði lengst af við kennslu við Flensborgarskóla í Hafnarfirði eða um 25 ára skeið. Hann lét af störfum þar árið 2003.

Kennsla:

Albert var afar vinsæll meðal nemenda sinna sem hann sinnti af mikilli alúð og fagmennsku með mannlega þáttinn í fyrirrúmi. Hann átti auðvelt með að vekja áhuga nemenda sinna  á stærðfræði, sem hann kenndi alla tíð og var honum umhugað um velferð nemenda sinna. Hann var  alla tíð málsvari þeirra sem minna máttu sín. Ef eitthvað bjátaði á innan veggja skólans var Albert fyrstur manna til að bjóða fram aðstoð sína. Hann vakti yfir hag skólans, hag meðborgara sinna og nemenda og var samkvæmur sjálfum sér í einu og öllu. 

Ritstörf:

Blak í skólanum – minna - blak, þýtt og endursagt, 1975. Blak, A stig, 1978. Saga blakdeildar HK í 30 ár ( handrit, Skjalasafn Kópavogs).  Auk þess hefur Albert ritað fjölda greina um blakíþróttina í blöð og tímarit.

Störf að félagsmálum, einkum á sviði blakíþróttarinnar:

Blak hérlendis var fyrst stundað af einhverju marki um og uppúr 1970. Það var Alberti mikið hjartans mál að íþróttafélögin beittu sér fyrir öflugu starfi barna og ungmenna. Hann vissi sem er að þróttir eru mikilvægur liður í félagslegri og persónulegri uppbyggingu og þroska einstaklingsins. Sjálfur kynntist hann íþróttinni á Laugarvatni og varð liðtækur blakmaður. Albert er enn að og tók síðast þátt á öldungamóti vorið 2013.

Albert var einn af stofnendum Blaksambands Íslands og fyrsti formaður þess, sat í stjórn þess og var formaður fræðslunefndar Blaksambandsins um nokkurra ára skeið. Hann stofnaði blakdeild HK árið 1974 og var formaður deildarinnar fram til ársins 1995, eða í 21 ár. Allan þann tíma var hann allt í öllu. Lengi vel þjálfaði hann alla flokka, var leikmaður, fararstjóri og bílstjóri – og var þá hvorki spurt um vinnutíma eða launagreiðslur.    Keppnisferðir barna og unglinga voru oftar en ekki farnar á hans kostnað enda er Albert gjarnan kallaður „Faðir blaksins á Íslandi“ og er það réttnefni að áliti margra. Hann sýndi ótrúlegan dugnað og ósérhlífni í störfum sínum, glímdi oft á tíðum við mótlæti en lét ekki bugast. Og loksins árið 1993 vann karlalið HK alla titla sem í boði voru og kvennaliðið varð síðan Íslandsmeistari árið 1995. Börnin hans Alberts voru orðin stór. Blakdeild HK hefur síðan vaxið og dafnað og er nú stærsta blakdeild landsins.  Albert var einnig viðloðandi og einlægur hvatamaður þess að fleiri blakdeildir væru stofnaðar, að blakiðkun fengi kynningu hjá íþróttakennurum og hefur í næstum hálfa öld unnið að framgangi blakíþróttarinnar á allan máta.

Albert sat í stjórn UMSK í 24 ár og hefur hann hlotið fjölmargar viðurkenningar og heiðursmerki fyrir störf sín að íþróttamálum m.a. frá HK, Blaksambandi Íslands, UMFÍ og  UMSK.

Lokaorð:

Eins og að ofan greinir sinnti Albert  H.N. Valdimarsson kennslu, ritstörfum og störfum að framgangi blakíþróttarinnar um margra áratuga skeið. Öll þessi störf voru unnin af einstakri fórnfýsi og ósérhlífni. Albert sinnti æskufólki af alúð og var umhugað um velferð þess.  Óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf, sérstaklega í þágu barna og unglinga var aðalsmerki hans og  því eru þeir margir sem líta á hann sem velgjörðarmann sinn og telja að heiðra beri hann með hinni íslensku fálkaorðu fyrir fórnfúst ævistarf.

Það er því einlæg von allra velunnara Alberts að orðunefnd veiti honum hina íslensku fálkaorðu (auðvitað hefði hann átt að vera búinn að fá hana fyrir langa löngu!) og að þessi einstaki maður verði þannig heiðraður fyrir ævistarf sitt í þágu fræðslumála og blakíþróttarinnar á nýársdag 2015.   Það fer vel á því að slíkur heiður falli honum í skaut á 40 ára afmælisári blakdeildar HK.

 

Virðingarfyllst,

 

Ásta Sigrún Gylfadóttir, formaður blakdeildar HK

 

Jason Ívarsson, formaður Blaksambands Íslands

 

Lárus S. Blöndal, forseti ÍSÍ

 

Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborg

 

Valdimar Leó Friðriksson, formaður UMSK