Stofnum embætti Umboðsmanns sjúklinga - umsögn Viljaspora


Guest

/ #16

2015-11-12 22:11

Embætti Umboðsmanns sjúklinga tel ég afar dýrmætt gæfuspor fyrir íslensku þjóðina og varðar almannaheill! Málið er mér afar hugleikið, vegna alvarlegrar læknamistakasögu látins eiginmanns míns og meðferð þá í kerfinu er málið hlaut. Málið hans fór í gegn um Landlæknisembættið fyrst árið 1989, Siðanefnd lækna, Umboðsmanns Alþingis, Heilbrigðisráðherra, Ráðherranefnd um Heilbrigðismál, Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. leiddi málið til lykta með samningi við ráðuneytið árið 1993, Fjárlög Alþingis árið 1993. Seinni hluti mistakamálsins 1993 fór í gegn um Landlæknisembættið, Tryggingastofnun, Sjúklingatryggingar og Ágreiningsnefnd, um Heilbrigðismál sem var til húsa hjá Sýslumannsembættinu í Reykjavík. Rétt fyrir andlát eiginmanns míns, sem lést 7. apríl 2003, óskaði ég eftir persónulegu viðtali við Landlækni og fór fram á það við hann, að fram færi réttarkrufning á líkama eiginmanns míns, eftir hans andlát og að ákveðnir hlutir málsins, yrðu þar skoðaðir og staðfestir. Landlæknir gaf mér sitt persónulega loforð um, að vera sjálfur viðstaddur réttarkrufninguna og að staðið yrði að rannsókninni að fullum heilindum. Frágangur og endanleg niðurstaða málsins varð mér afar þungbær. Ekki var staðið að krufningunni eins og lofað var. Skriflegri niðurstöðu frá réttarkrufningarsérfræðingnum, þurfti ég svo sjálf að ganga eftir, með bréfaskriftum milli landa og þurfti svo einnig að bíða lengi eftir svari. Þar fékk ég loksins staðfestingu á, hvernig var staðið að krufningunni og út frá hverju var gengið. Óskir mínar varðandi framkvæmd krufningarinnar voru ekki sendar skriflega frá Landlækni til réttarkrufningarsérfræðingsins, Landlæknir var ekki viðstaddur krufninguna sjálfur,og samkvæmt svarbréfi réttarkrufningarsérfræðingsins virðist, sem ekki hafi verið snert á því að skoða og staðfesta það mál, sem ég hafði sérstaklega óskað eftir við Landlækni að yrði staðfest. Ég tel að á meðan alvarleg læknamistakamál á íslandi fá slíka afgreiðslu, sé lítil von um að af þeim verði dreginn lærdómur öðrum sjúkum til heilla. Heitasta ósk látins eiginmanns míns var, að sannleikur málsins mætti verða til þess að auka þekkingu lækna landsins, svo forða mætti öðrum sjúkum frá þeim hryllingi, sem hann sjálfur og við fjölskyldan hans þurftum að fara í gegn öll þessi þungbæru ár. Ég skrifaði tvær blaðagreinar í Fréttabréf Öryrkjabandalagsins árin 1993 og 1994, að beiðni Helga Seljans, svargreinar þáverandi landlæknis birtust í sömu tölublöðum á þeim tíma. Einnig skráði ég dagbók og safnaði saman öllum læknaskýrslum og bréfum sem fengust afhent um málið.