Sigmundur Davíð, þér er hér með sagt upp störfum!

 Reykjavík, 26. Mars 2016

Hæstvirtur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Þér er hér með sagt upp störfum. Þér er sagt upp, sem forsætisráðherra þessarar þjóðar og við krefjumst þess að þú víkir nú þegar.

Ástæður uppsagnarinnar, eru fyrst og fremst dómgreindarbresturinn sem þú hefur sýnt í þínu starfi, sem og skortur á siðferðisvitund.

Þú hefur vísvitandi blekkt okkur, ítrekað logið að þjóðinni og þar með gerst brotlegur við okkur öll.

Gleymdu ekki að við erum yfirmenn þínir.

Gildi okkar sem þjóðar og velferð, eru grundvölluð á samstöðu okkar allra, samkennd, heiðarleika og góðvild. Þú hefur ekki sýnt okkur samstöðu, þú hefur ekki sýnt okkur samkennd og þú hefur ekki komið heiðarlega fram.

Hagmunaárekstrar eru alvörumál og stórhættulegir. þeir eru til þess fallnir að skapa óöryggi og vantraust.

Það skiptir engu máli hvaða önnur verk hafa verið unnin, hvaða árangur hefur náðst eða ekki náðst. Það  skiptir heldur ekki máli hvað forverarnir gerðu.

Málið er ósköp einfalt.

Við treystum þér ekki lengur til að fara með framkvæmdavald þjóðarinnar Við treystum þér ekki lengur til að fara með löggjafarvald Íslands Við treystum þér ekki lengur til að gæta hagsmuna öryrkja, aldraðra og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Við treystum þér ekki til að gæta hagsmuna okkar sem þjóðar.  

Við krefjumst þess að þú látir af störfum nú þegar, sem þingmaður og ráðherra, og boðað verði til kosninga.