Umsögn til Velferðarráðuneytis

Sæl verið þið.
Við, undirrituð, krefjumst þess með þessari undirskriftasöfnun að Heilbrigðisráðherra taki til greina þær athugasemdir sem við neytendur og hagsmunaðilar höfum varðandi hið nýja frumvarp um sölu og notkun veipa. Birtar hafa verið ótal rannsóknir frá virtum stofnunum sem sýna fram á að dregið er umtalsvert úr heilsufarslegum skaða þegar neytandi færir sig frá tóbaki og yfir í veipur. Skemmst er að minnast niðurstöðum úr rannsókn sem Krabbameinsfélag Bretlands birti nú á dögunum. Í þeirra rannsókn er veipan færð undir sama hatt og aðrar þær lausnir sem aðstoða fólk við að hætta reykingum, t.a.m. nikótíntyggjó. Engu að síður stendur nú til að færa veipurnar undir tóbakslög, en slík tilfærsla getur ekki átt við nein rök að styðjast. Samkvæmt tillögu að frumvarpi þá er verið að flokka veipur (rafrettur) og allt þeim tengt, sem dæmi nikótínlausa vökva, munnstykki, tanka, bómul, víra og fl. sem tóbak.

Umræddir hlutir eru ekki tóbak og því ómögulegt að flokka það sem tóbak. Það er með öllu ógerlegt að láta hluti bera tóbaksgjöld sem eiga enga samleið með tóbaki og innihalda engin ávanabindandi efni. Það eina sem tengist veipum sem væri fræðilega hægt að skrá undir tóbakslög væri vökvi sem inniheldur nikótín þó svo að umrædd vara sé ekki tóbak. Engu að síður mun það ýta fólki í stórum skömmtum frá veipunum ef þetta eykst í kostnaði og er flokkað sem tóbak. Það fólk mun því halda áfram að notast við tóbak (sígarettur, munntóbak og neftóbak) í staðin fyrir að fara öruggari og heilsusamlegri leið til þess að hætta á endanum alfarið í nikótín notkun.

Með því að flokka veipur sem tóbak er verið að dæma fjölda fólks í að halda áfram að reykja.

Undirritaðir krefjast þess hérmeð að eftirfarandi atriði frumvarpsins verði endurskoðuð:

  • Samkvæmt tillögu að frumvarpi er verið að flokka veipur, tanka, nikótínlausa vökva og aðra aukahluti tengda veipunum sem tóbak. Ekki er hægt að réttlæta það að umræddir hlutir flokkist sem tóbak þar sem þeir eiga nákvæmlega ekkert skylt með tóbaki.
  • Samkvæmt tillögu að frumvarpi mega tankastærðir veipunnar einungis vera 2ml. Þessi liður frumvarpsins er neytandanum einungis til trafala, gerir eldra fólki erfiðara um vik að nota veipurnar og eykur líkur á sliti búnaðarins til muna. Á sama tíma veldur þetta meiri hættu á að börn komist í vökvan þar sem notendur munu síður nenna að ganga frá flöskum á örugga staði þar sem þeir þurfa að grípa í þær mikið oftar yfir daginn þar sem þörfin til að fylla á fjölgar gífurlega.
  • Samkvæmt tillögu að frumvarpi mega áfyllingar veipa einungis nema 10ml. Það er margt sem mælir gegn þessu. Kostnaður fyrir neytandann eykst til muna, plastið sem fellur til verður umtalsvert meira auk þess sem smærri brúsarnir eru gjarnari á að týnast. Einnig er þessi liður, að við höldum, byggður á misskilningi. Það er nefnilega þannig að nikótín magn í vinsælustu 30ml flöskunum (6mg) er hið sama og í vinsælustu 10ml flöskunum (18mg). Að okkar áliti er því þessi liður algjörlega óþarfur.
  • Samkvæmt tillögu að frumvarpi verður 6 mánaða umsóknartími fyrir hverja nýja vöru í þeim flokkum sem tilheyra veipum og áyllingum. Veipur og áfyllingarnar tengdar þeim eiga sáralítið sameiginlegt með sígarettum og öðrum tóbaksafurðum. Veipan hefur yfir að ráða mun breiðara úrvali af bragðtegundum og mismunandi búnaði. Þetta er ein af ástæðum þess að veipan hefur virkað svona vel gegn sígarettunni. Því teljum við að skert vöruúrval muni einungis verða til trafala og í kjölfarið muni fleiri færa sig yfir í sígarettur eða aðrar tóbaksafurðir að nýju. Flestir ættu að geta sammælst um að það er síður en svo samfélagsbót. Einnig heftir þetta að hægt sé að bjóða uppá öruggustu og bestu græjur sem í boði eru hverju sinni.

Við viljum að sjálfsögðu að settar verði reglur og lög eins og aldurstakmark, sem ætti að vera 18 ára og að takmarka eigi notkun veiptækja innandyra og í almennum rýmum nema annað sé tekið fram, það er að segja til dæmis í sérstökum verslunum sem sérhæfa sig í sölu á veipum.

Eftirlit á innihaldi vökva ætti að vera til staðar og skal innihald þeirra skrifað skýrum stöfum á umbúðir vökvana, sem og innihald nikótíns styrks, hvort sem um er að ræða 0 mg, 3mg o.s.fr.

 

Með undirskrift styður þú þetta erindi til Velferðarráðuneytis Íslands.

 

Mbk Veipsamfélagið á Íslandi


Nýja Nikótín Sambandið    Contact the author of the petition