Tryggjum leikskólaúrræði í Hlíðahverfi.

Leikskólamál í Hlíðahverfi

Akureyrarbær hefur tilkynnt um lokun á leikskólanum Hlíðabóli í Hlíðahverfi frá og með júní 2017. Rök fyrir lokun eru fækkun leikskólabarna og þörf á hagræðngu í rekstri af þeim sökum.

Í Hlíðahverfi verður enginn leikskóli eftir lokun Hlíðabóls en 9 leikskólar verða starfræktir á Akureyri. Tveir í Síðuhverfi með 230 pláss, tveir í Giljahverfi með 200 pláss, einn á Oddeyrinni með 85 pláss, tveir í Lunda og Gerðahverfi með 220 pláss, einn á Brekku og Innbæ með 150 pláss og einn í Naustahverfi með 135 pláss. Í Holtahverfi verður deild úr leikskóla í Síðuhverfi með 36 pláss og annar Hlíða og Holtahverfi því ekki sem hverfisleikskóli.

Hlíðaból er rekinn af Hvítasunnukirkjunni og hefur því trúarlega sérstöðu. Þrátt fyrir mjög gott starf má um það má deila hvort leikskóli með slíka sérstöðu henti sem hverfisleikskóli. Aðeins brot af leikskólabörnum í hverfinu hefur sótt leikskólann og er sú staða komin upp að skólabörn búsett í hverfinu sækja í auknum mæli aðra hverfisskóla en Glerárskóla. Hugsanlega má rekja það til skorts á leikskólaúrræðum í hverfinu og að foreldrar velji að láta börn sín fylgja nemendahópum úr leikskólum í aðra hverfisskóla. Ætla má að þetta vandamál aukist til muna ef engan leikskóla verður að finna í Hlíðahverfi.

Á fundum bæjaryfirvalda með foreldrum barna á leikskólanum Hlíðabóli hefur verið greint frá því að til standi að byggja nýjan leikskóla við Glerárskóla með opnun árið 2019. Þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir farmkvæmdinni á framkvæmdalista í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2016-2019 og ekki á gildandi skipulagi. Á framkvæmdalistanum kemur fram endurnýjun á Glerárskóla fyrir 15 m.kr. árið 2016 og 100 m.kr. árið 2017.

Við undirrituð, skorum á bæjaryfirvöld að

* stuðla að fjölgun barna í Hlíðahverfi með því að bjóða uppá eftirsóknarvert leikskólaúrræði í hverfinu

* tryggja leikskólaúrræði innan Hlíðahverfis strax sumarið 2017 (eftir lokun Hlíðabóls), hvort sem um er að ræða tímabundið eða varanlegt úrræði.

* hagræða rekstri leikskóla vegna fækkunar barna með lokun í hverfum sem áfram stendur til boða fjöldi leikskólaplássa þrátt fyrir lokun á deild eða leikskóla.

* sýna í verki að umrædd áform um opnun nýs leikskóla við Glerárskóla árið 2019 verði að veruleika.